Íslendingar nýttu sér aflandsfélög á Bahama-eyjum. Litlar vísbendingar eru hins vegar um að íslenskir bankar hafi notað félög þar fyrir viðskiptavini sína. Þetta má lesa úr gögnum sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum víðsvegar um heim. Morgunútvarpið vinnur úr gögnunum í samstarfi við Reykjavik Media.

Önnur gögn en þau frá Panama

Gögnin sem nú birtast í fyrsta sinn eru úr fyrirtækjaskrá Bahamas; ekki er um sömu gögn að ræða og voru til umfjöllunar í Panamaskjölunum sem sömu fjölmiðlar hafa unnið úr síðastliðna mánuði. Gögnin eru af öðrum toga og gefa ekki upp jafn nákvæma mynd og Panamagögnin, sem láku frá panamaísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca.

Íslendingarnir í Bahama-gögnunum eru fimm talsins. Einn þeirra birtist einnig í Panamagögnunum en Mossack Fonseca rak útibú og aflandsþjónustu á Bahama líkt og víða á aflandseyjum á þessum slóðum.  Íslendingarnir í Bahamagögnunum eiga það flestir sammerkt að vera ekki með heimilisfesti hér á landi í dag. Ekki er um að ræða stjórnmálamenn eða einstaklinga sem hafa sýslað með opinbert fé. Gögnin hafa að stærstum hluta verið gerð aðgengileg í gegnum vef ICIJ, á sama stað og grunnupplýsingar úr Panamagögnunum hafa verið gerð opinber.

Ekki er um að ræða jafn ítarleg gögn og birtust úr lekanum frá Mossack Fonseca þar sem innri tölvupóstar og tölvukerfi lögfræðistofunnar var undir. Bahama-gögnin eru í raun fyrirtækjaskráin á Bahama-eyjum en með lekanum er hún í fyrsta sinn gerð opinber. Það gerir það hins vegar að verkum að ekki er hægt að fullyrða um í hvaða tilgangi öll félögin voru stofnuð né hvort þeir fyrirsvarsmenn sem skráðir eru fyrir félögunum séu raunverulegir eigendur þeirra eða aðeins starfsmenn og leppstjórnendur annarra einstaklinga eða fyrirtækja.

Ekki endilega eigendur félaganna

Eins og fjallað var í Panamagögnunum er viðtekin venja í aflandsheiminum að setja skúffueigendur í stjórnir félaga eða starfsmenn þeirra bankastofnana sem þjónusta félögin. Þannig voru þau Marta Edgehill, Carmen Wong, Jaquelin Alexander og George Allen einir umsvifamestu stjórnendur aflandsfélaga á vegum Mossack Fonseca; hálfgerðir stjórnarmenn Íslands, enda í fleiri stjórnum félaga tengdum Íslendingum en nokkur annar. Það eru líka engin gögn sem sýna eða gefa vísbendingar um að lögbrot hafi verið framin eða að upplýsingum hafi verið haldið frá skattayfirvöldum á Íslandi.

Íslenskir bankar voru ekki jafn umsvifamiklir á Bahama og þeir voru á Tortóla, höfuðborg Bresku jómfrúareyjanna. Í raun eru aðeins örfáir samningar á milli fyrirtækja í Bahama og íslenskra banka að finna í gögnunum, en það er þá aðeins vísun í samninga í stofngögnum eða samþykktum tiltekinna félaga. Gögnin gefa því takmarkaða innsýn inn í starfsemi Bahama-félaga. Þau sýna hins vegar að aflandsþjónusta sem Íslendingar hafa notað á síðustu árum og áratugum var ekki bundin við einstaka lögmannsstofur eða banka og staðfesta þann grun að  aflandsviðskipti Íslendinga séu aðeins upplýst að hluta til. Heildarmyndin er enn í móðu.