
Hannes Hilmarsson, forstjóri og stærsti hluthafi flugfélagsins Atlanta, var hluthafi í félögum í skattaskjólum sem meðal annars fengu lán frá Landsbanka Íslands á árunum fyrir hrunið. Þetta kemur fram í Panamaskjölunum svokölluðu, gagnaleka frá Panamaísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca. Miðað við gögnin í Panamaskjölunum er að minnsta kosti eitt félag sem Hannes tengist, Limelight Securies Inc. í skattaskjólinu Tortólu ennþá virkt árið 2014 en það var fært yfir til eignastýringarfyrirtækisins Arena Wealth Management í Lúxemborg.
Hannes Hilmarsson vann hjá fyrirtækinu Avion Group sem Magnús Þorsteinsson, hluthafi í Landsbankanum, stýrði um tíma. Flugfélagið Atlanta var í eigu Avion Group. Avion Group keypti meðal annars Eimskipafélag Íslands. Fyrirtækin sem Hannes tengist í Panamagögnunum voru stofnuð á meðan hann vann hjá Avion Group en árið 2007 keyptu hann og aðrir lykilstjórnendur Flugfélagsins Atlanta fyrirtækið í 63 milljón dollara viðskiptum.
Hannes segir að hann hafi komið að félögum í skattaskjólum á sínum tíma vegna starfs síns hjá Avion Group sem Atlanta tilheyrði: „Ég get staðfest að ég átti aðild að erlendum félögum í tengslum við kaup lykilstjórnenda Avion Group hf. á hlutabréfum í félaginu árið 2006. Umrædd félög voru tilkomin vegna lánveitinga frá Landsbankanum í Lúxemborg, sem á þessum árum lagði á ráðin um uppsetningu lánveitinganna eins og algengt var á þeim tíma. Hvergi var reynt að leyna því að umrædd hlutabréfakaup sem ég tengdist voru gerð með aðkomu erlendra félaga, þar sem það kom skýrt fram í opinberum tilkynningum til Kauphallar á sínum tíma.“
Atlanta er í dag stórfyrirtæki á Íslandi og námu tekjur þess á síðasta ári rúmlega 257 milljónum dollara, rúmlega 33 milljarða króna. Hannes á 50 prósenta hlut í Atlanta í gegnum félagið Haru Holding ehf. Starfsemi Atlanta fer hins vegar fram erlendis að langmestu leyti þótt höfuðstöðvar fyrirtækisins séu í Kópavogi. Starfsemi Atlanta, sem á 19 þotur, gengur út að leigja þær til flugfélaga og annarra aðila út um allan heim, meðal annars til Sádí-Arabíu, Nígeríu og annarra Afríkulanda.
Gögnin um félög tengd Hannesi Hilmarssyni eru bara hluti þeirra gagna sem finna má í Panamaskjölunum um starfsemi íslenskra flugfélaga og stjórnenda þeirra í skattaskjólum. Í síðustu viku greindi Fréttatíminn til dæmis frá því að félag sem Icelandair á hlut í, Icelease ehf., hefði stundað viðskipti með Airbus þotu í gegnum Panama árið 2013.
Hannes fékk prókúruumboð yfir Limelight Securites árið 2006 og fékk félagið þá meðal annars 87 milljóna króna lán frá Landsbankanum í Lúxemborg til að kaupa hlutabréf fyrir. Magnús Stephensen, þáverandi starfsmaður Avion Group, var einnig hluthafi í félaginu auk þeirra Stefáns Eyjólfssonar og Kára Kárasonar, samkvæmt gögnum í Panamaskjölunum frá árinu 2009.
Aðspurður segir Hannes að hann hafi ekkert komið að félaginu um árabil. „Ef eitthvað af þessum félögum sem ég tengdist í kringum Avion Group er ennþá aktívt, þá er það ekki með minni vitund, aðkomu eða eignaraðild. Ég hef því miður ekki upplýsingar um afdrif félaganna í dag.“ Hannes segir jafnframt að skattayfirvöld á Íslandi hafi spurst fyrir um félög hans og viti því af þeim. „Jafnframt eru skattayfirvöld upplýst um tengsl mín við þessi erlendu félög samkvæmt fyrirspurn þess efnis.“