Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ásamt eiginmanni sínum skráð fyrir félaginu Ravenna Partners á Tortóla. Allt hlutafé Ravenna var skráð á þau hjónin í ágúst 2005. Þorbjörg Helga var kjörin í borgarstjórn 2006 og sat sem borgarfulltrúi til ársins 2014.
Þetta kemur fram í gögnum úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst höndum yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum vísðvegar um heim. Í gögnunum eru nöfn þriggja ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands auk fyrrverandi ráðherra, annarra stjórnmálamanna og íslenskra viðskiptamanna.
Milljón lögð í félagið
Að sögn Þorbjargar Helgu og eiginmanns hennar var fyrirtækið stofnað og ein milljón króna lögð fram sem hlutafé í því, eftir tilboð þar um frá Landsbankanum í Lúxemborg. Félagið hafi hins vegar aldrei verið nýtt undir neina starfsemi, en gerð hafi verið grein fyrir tilvist þess á skattframtölum til ársins 2007.
Samkvæmt svari Þorbjargar, var hún þá ekki lengur eigandi aflandsfélags, sem skrá hefði þurft í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa árið 2009.