Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, benti á það í fréttum stuttu eftir að upplýst var um Tortóla-félag forsætisráðherra að lítið væri að græða á því í dag að eiga aflandsfélag í skattaskjóli; það hefði breyst eftir hrun. Hann minntist hins vegar ekki á að hann sjálfur var milliliður Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, varðandi uppsetningu félagsins í Panama og stofnun bankareikninga í Sviss.
Margvíslegur tilgangur
Kristján Gunnar segir að tilgangurinn með stofnun aflandsfélaga geti verið margþættur. „Þetta er félag með takmarkaða ábyrgð. Og þegar menn fara í fjárfestingar þá vilja menn einangra áhættuna innan félagaformsins. Alveg eins og með íslenskt ehf, þá gilda þessar reglur þar. Og þetta eru lagareglur sem eru byggðar á breskum rétti. Og þetta eru mjög góðar reglur. Þetta er góð félagaréttarumgjörð. Það er mjög auðvelt þegar menn eru að fjárfesta að fá lán frá bönkum erlendis til tryggingar láninu. Og það er jafnvel betra en að vera með íslenskt félag í því,“ segir hann í viðtali við RME um málið.
Hann segist ekki skoða málið sérstaklega út frá siðferðislegri nálgun. „Ég hef nú bara skoðað þetta út frá lagalegu sjónarmiði. Þetta eru lögin og það er nú yfirleitt þannig að lögin endurspegla siðferðið. Og ef það er farið eftir lögum, þá hlýtur það að vera siðferðilega rétt,“ segir hann.
Vildi vera tengiliður Mossack Fonseca á Íslandi
Kristján á að baki langan feril í skattaráðgjöf við íslenska banka en hafði áður gegnt stöðu skattstjóra og stýrt eftirlitsdeild Ríkisskattstjóra. Í október 2013 óskaði Kristján Gunnar eftir því við Mossack Fonseca, að fá nokkurs konar umboð fyrir aflandsþjónustu þess hér á landi. Í skeyti sem hann sendi til Panama kynnti hann sig sem lögfræðing og lektor við Háskóla Íslands og minnti á að hann hefði í störfum fyrir Landsbankann átt í viðskiptum við fyrirtækið. Kristján kvaðst hafa umbjóðendur sem vildu stofna félag í Panama – en óskaði jafnframt eftir að geta stofnað félög á fleiri aflandssvæðum.
Kristján neitar því nú að þessi þjónusta sé ástæða þess að hann hafi leitað til Mossack Fonseca og óskað eftir viðskiptasambandi við fyrirtækið og segir panamíska lögfræðistofan sé ekki bara með aflandsfélög. En ef það er ekkert skattalegt hagræði, hvað er þá verið að gera? „Ég fór yfir það áðan, hvað það getur verið sem skiptir máli. Eins og til dæmis með fjárfestingar og veðsetningar og lán til dæmis.“
Kristján Gunnar segist ekki muna eftir samskiptunum vegna félags Júlíusar Vífils, þar sem sérstaklega er tekið fram að nafn hans eigi ekki að koma fram. „Ég bara kannast ekki við það. Ég þarf að skoða það bara. Ég náttúrulega veit ekki hvernig þetta er. Hann hefur sennilega talið þetta fram. Ég þarf að rifja þetta upp. Ég bara man ekki eftir þessu,“ segir hann.