„Getum við gefið út handhafabréf eða þurfa þau að vera skráð á nöfnin?“ Svona spurði sá sem setti upp félagið Falson & Co. á Seychelle-eyjum fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og viðskiptafélaga hans árið 2006. Félagið var sett upp á eyju undan ströndum Afríku í þeim tilgangni að halda utan um fjárfestingu þriggja Íslendinga, þar á meðal Bjarna, í fasteignaverkefni í Dúbaí.
Þetta kemur fram í gögnum úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst höndum yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum vísðvegar um heim. Í gögnunum eru nöfn þriggja ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands auk fyrrverandi ráðherra, annarra stjórnmálamanna og íslenskra viðskiptamanna.
Þingið vissi ekki af aflandsfélagi Bjarna
Falson & Co. var slitið árið 2012, rúmum fimm árum eftir að það var stofnað og tæpum þremur árum eftir að sérstakar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna tóku gildi. Félagið hefur aldrei verið skráð í hagsmunaskráningu alþingis en í símaviðtali við Reykjavík Media segist Bjarni ekki hafa skráð félagið þar sem hann hefði litið á það sem svo að félaginu hafi verið slitið áður en reglurnar tóku gildi. Hann segir að félagið hafi verið eignalaust þegar reglur forsætisnefndar Alþingis tóku gildi vorið 2009. Engu að síður sýna tölvupóstar, sem fyrst voru birtir í DV árið 2010, að Bjarni notaði netfang sitt hjá Alþingi til að ganga frá greiðslum frá félaginu vegna sölu fjögurra íbúða sem hann hafði fjárfest í ásamt viðskiptafélögum sínum.
Bjarni staðfesti í símaviðtali við Reykjavik Media að hann hafi átt um það bil 30 prósenta hlut í félaginu á móti viðskiptafélögum sínum, þeim Baldvin Valdimarssyni, framkvæmdastjóra og einum eigenda Málningar ehf, og Ægi Birgissyni, fyrrverandi starfsmanni Glitnis og framkvæmdastjóra fjárfestingafélagsins Reik ehf. Hann kannaðist þó ekki við félagið fyrst þegar hann var spurður út í það. „Ég var búinn að gleyma þessu nafni ef ég á að segja alveg eins og er. Félagið hélt utan um, þess eini tilgangur var að halda utan um fasteign sem að félagið var skráð fyrir, fyrir mörgum árum og var sellt fyrir mörgum árum og félagið leyst upp í framhaldinu. Þetta félag á ekki að vera til samkvæmt mínum heimildum í dag,“ sagði fjármálaráðherrann.
Engar upplýsingar voru aðgengilegar um félagið eða raunverulega eigendur þess. Þegar leitað var að nafni félagsins á netinu kom aðeins ein niðurstaða og vísaði hún í gögn yfirvalda í New South Wales í Ástralíu um umsókn um byggingarleyfi þar í landi. Að öðru leyti var ekki að finna neinar upplýsingar um Falson & Co. í gögnum opinberum almenningi en Bjarni segir hins vegar að aðkoma sín að félaginu hafi alla tíð verið opinber.
Augljóst að félagið átti að fara leynt
Samkvæmt gögnum Mossack Fonseca var það með ráðum gert að fela eignarhald Falson & Co. eftir bestu getu. Hlutabréf í félaginu voru gefin út á handhafa að sérstakri ósk starfsmanns Landsbankans í Lúxemborg, sem keypti félagið úr hillum Mossack Fonseca, lögfræðistofu sem sérhæfir sig í umsjón og uppsetningu aflandsfélaga. Stjórnarmenn félagsins voru líkt og í fjölmörgum öðrum aflandsfélögum þau George Allen, Marta Edghill og Carmen Wong. Þau sitja öll í stjórnum þúsunda aflandsfélaga og hafa þann eina tilgang að stimpla og skrifa undir hvaða skjöl sem þeim eru send. Allt er þetta gert til að mynda leyndarhjúp um raunverulega stjórnendur. Meðal annars sitja tvö þeirra stjórn Tortóla-félags Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og eiginkonu hans.
Það er ekki fyrr en Bjarni og viðskiptafélagar hans ætluðu að opna bankareikning fyrir Falson & Co í Sviss sem eignarhaldi þess var breytt úr handhafabréfum og hlutirnir skráðir á hina raunverulegu eigendur. Var það gert af kröfu bankans sem ekki vildi opna reikning fyrir félag sem ekki væri vitað hver ætti í raun og veru. Bjarni ber því hins vegar við í svörum til Süddeutsche Zeitung, samstarfsaðila Reykjavik Media, að hann hafi aldrei vitað að félagið væri staðsett á Seychelle-eyjum heldur hafi hann talið það vera í Lúxemborg.
Í skriflegum svörum til Süddeutsche Zeitung segir Bjarni þó það aldrei hafa verið sín ætlun að leyna eignarhaldinu. „Fyrirtækið var sett á laggirnar af viðskiptafélögum mínum að ráðgjöf Landsbankans í Lúxembúrg. Ég hef sjálfur aldrei verið viðskiptavinur Landsbankans og hafði ekkert með það að gera að handhafabréf væru gefin út í fyrirtækinu. Ég ætlaði mér heldur aldrei að leyna eignarhlut mínum í félaginu. Ég gerði grein fyrir eignarhlut mínum í því til skattayfirvalda á Íslandi,“ segir hann.
Sagðist ekki hafa tengsl við aflandsfélög
Tilvist félagsins stangast á við svör hans í Kastljósi í febrúar árið 2015 þegar hann var spurður hvort hann hefði átt eða notað félög í skattaskjólum í viðskiptum sínum. Þeirri spurningu svaraði hann neitandi. Í Kastljósþættinum var hann spurður orðrétt: „Hefurðu sjálfur átt viðskipti í gegnum það sem hefur verið skilgreint sem skattaskjól, átt þar eignir eða farið með peninga í gegnum svoleiðis apparöt? Nei. Ég hef ekki verið með neinar eignir í skattaskjólum – hef ekki verið með neitt slíkt og á engin hlutabréf eða neina slíka hagsmuni í dag.“
Spurningin var sett fram í kjölfar mikillar umræðu um hvort heimila ætti Skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn um aflandsfélög Íslendinga. Bjarni sætti gagnrýni fyrir tregðu til að samþykkja kaup gagnanna en það sem þá var ekki ljóst – var að nafn fjármálaráðherrans var meðal gagnanna í pakkanum sem Skattrannsóknarstjóra bauðst. Á endanum var samþykkt sérstök fjárveiting til kaupa á gögnunum sem eru hluti þeirra sömu gagna frá Mossack Fonseca sem lekið var til Süddeutsche Zeitung og deilt var með ICIJ og Reykjavik Media.
Bjarni segir í skriflegum svörum til Süddeutsche Zeitung að hann hafi talið félagið vera í Lúxemborg. „Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að félagið væri skráð á Seychelles-eyjum, sem gæti flokkast sem skattaskjól, öfugt við Lúxembúrg. Minn skilningur var sá að félagið væri skráð í Lúxembúrg. Það endurspeglast í skattframtölum mínum. Tilvísun til skattaskjóla í viðtalinu vísaði til þess að verið væri að fela eignir eða starfsemi. Ég hef ekki leynt eignarhaldi mínu á þessu fyrirtæki fyrir yfirvöldum. „Hef ekki verið með slíkt“ vísar því sérstaklega til þess að ég hafi engu leynt,“ sagði Bjarni.
Ein íbúð varð að fjórum
Bjarni sagði í símaviðtali við RME að tilgangur félagsins hafi verið að halda utan um eign í einni íbúð í Dúbaí. Í svörum hans til Süddeutsche Zeitung voru íbúðirnar hins vegar fjórar en Bjarni sendi þeim yfirlýsingu frá verktakanum í Dúbaí þar sem fram kom að fjórar íbúðir á 28. hæð Emirates Crown Tower, við höfnina í Dúbaí hefðu verið keyptar af Falson & Co. Í svörum Bjarna segir hann einnig að það hafi verið opinbert í mörg ár að hann hafi átt fasteign í Dúbaí. Það var þó ekki að fyrra bragði sem Bjarni upplýsti um viðskipti sín í furstadæminu heldur var það DV sem upplýsti um fjárfestingarnar árið 2010 og vitnaði til tölvupósta sem gengu á milli Bjarna og Ægis vegna málsins.
Í þeim tölvupóstum var Ægir að leita að bankareikningi Bjarna svo hann gæti millifært á hann fjármuni sem tilkomnir voru vegna sölu fasteignanna. Þessir póstar voru sendir dagana 22. og 23. október árið 2009, um það fimm mánuðum eftir að reglur um hagsmunaskráningu þingmanna tóku gildi. Reglurnar gera ráð fyrir að upplýst sé um hagsmuni á innan við fjórum vikum. Samskiptin vegna uppgjörs íbúðarinnar fóru í gegnum netfang Bjarna hjá Alþingi og er af þeim samskiptum ljóst að ekki var búið að ganga frá uppgjöri vegna íbúðaviðskiptanna, sem fram fóru í gegnum aflandsfélagið Falson & Co., fyrr en eftir að reglur um hagsmunaskráningu þingmanna tók gildi.