Á tveggja ára tímabili var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðhera skráður fyrir fimmtíu prósenta hlut í aflandsfélginu Wintris Inc. sem skráð er á skattaskjólseyjunni Tortóla. Eftir að hann var kosinn á þing og hafði stutt setningu svokallaðra CFC reglna, sem sett voru til höfuðs félaga á borð við Wintris, seldi hann eignarhlut sinn, til núverandi eiginkonu sinnar sem átti þangað til helmingshlutinn á móti honum. Kaupverðið var 1 dollari.

Þetta kemur fram í gögnum úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum vísðvegar um heim. Í gögnunum eru nöfn þriggja ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands auk fyrrverandi ráðherra, annarra stjórnmálamanna og íslenskra viðskiptamanna.

Stærsta nafnið sem tengist Íslandi er án efa nafn forsætisráðherra Íslands. Í byrjun árs 2008 keypti þáverandi viðskiptabanki Sigmundar Davíðs og þáverandi sambýliskonu hans og núverandi eiginkonu, Önnu Sigurlaugar, félagið Wintris Inc. af hillu Mossack Fonseca, lögfræðistofu sem sérhæfir sig í vörslu og uppsetningu aflandsfélaga. Landsbankinn gaf Mossack Fonseca skýr fyrirmæli; gefa ætti út prókuru, sem á ensku kallast power of attorney, til tveggja einstaklinga. Sömu einstaklingar áttu að fá sitt hvort hlutabréfið í félaginu. Það voru þau Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug.

Undir leyndarhjúp Tortóla

Þrátt fyrir fullyrðingar um að eignarhald og aðkoma Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans Önnu Sigurlaugar að félaginu Wintris Inc. hafi verið opinberar, voru engar upplýsingar að finna um félagið aðrar en að þær að þetta óþekkta félag ætti kröfur í slitabú Landsbankans og Kaupþings. Það var ekki fyrr en Anna Sigurlaug sagði frá tilvist þess á Facebook að almenningur fékk upplýsingar um að eigandi félagsins væri eiginkona forsætisráðherra. Uppljóstrun önnu kom í kjölfar þess að Sigmundur Davíð var spurður um félagið í viðtali við Reykjavík Media og SVT, sænska ríkissjónvarpið, þann 11. mars síðastliðinn. Viðtalið var hluti af tíu mánaða rannsókn á gögnum Mossack Fonseca.

Stjórnendur félagsins á pappírum voru lítt þekktir einstaklingar sem allir hafa panamískt ríkisfang og hafa atvinnu af því að sitja í stjórnum aflandsfélaga til að fela raunverulegt eignarhald og forða þannig eigendum frá því að vera nefndir í opinberum gögnum. Í stjórn Wintris Inc. sátu þau George Allen, Jaquelin Alexander og Carmen Wong. Þau sitja öll í stjórnum þúsunda aflandsfélaga og hafa þann eina tilgang að stimpla og skrifa undir hvaða skjöl sem þeim kunna að vera send. Allt er þetta gert til að mynda leyndarhjúp um raunverulega eigendur.

Af gögnunum sem Reykjavík Media hefur undir höndum hikar Mossack Fonseca ekki við að fara frjálslega með dagsetningar á undirrituðum skjölum. Það er til dæmis tilfellið með Wintris. Félagið er samkvæmt fyrirtækjaskrá á Bresku jómfrúareyjunum og öllum stofngögnum stofnað 9. október árið 2007. Samkvæmt tölvupóstum frá millistjórnanda á einkabankasviði Landsbankans í Lúxemborg var það 26. nóvember sama ár sem fyrst er óskað eftir því að félagið sé keypt. Tveimur dögum síðar eru svo gefin fyrirmæli um að skrá Sigmund Davíð og Önnu Sigurlaugu sem eigendur og prókúruhafa félagsins. Engu að síður eru dagsetningar á hlutabréfunum sjálfum og prókúrunni dagsettar einum og hálfum mánuði fyrr.

Fjölskylduarfurinn fór beina leið út

Samkvæmt yfirlýsingu Önnu Sigurlaugar og bloggskrifum Sigmundar Davíðs voru fjármunirnir í Wintris til komnir vegna fyrirframgreidds arfs sem Páll Samúelsson greiddi Önnu dóttur sinni. Þetta er stutt upplýsingum sem Anna Sigurlaug gaf Mossack Fonseca árið 2015 þegar hún hafði verið marginnt eftir svörum um hver uppruni fjármunanna sem hún lagði í félagið var. Í skjali sem hún undirritaði kom fram að uppruni fjármunanna, sem lagðir voru inn í félagið árið 2008 hafi verið arfur án þess að frekari upplýsingar hafi verið gefnar.

Fjármunirnir sem forsætisráðherrrahjónin segja að hafi verið færð inn í Wintris voru afrakstur sölu Toyota umboðsins til útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar í desember árið 2007. Aðeins nokkrum mánuðum síðar var búið að stofna reikning Wintris hjá Credit Suisse í London og virðist því vera að arfurinn sem fékkst við söluna hafi farið rakleitt út úr landinu og endaði á bankareikningi Tortólafélagsins.

Samkvæmt skattaskrám vegna áranna eftir hrun þegar Anna Sigurlaug og Sigmundur Davíð þurftu að greiða svokallaðann auðlegðarskatt, sem lagðist á hreina eign einstaklinga og sambúðarfólks, áttu þau rúman milljarð umfram skuldir. Nákvæmlega hversu há fjárhæð endaði í Wintris er því enn óljóst, enda eru ársreikningar félagsins ekki aðgengilegir almenningi líkt og raunin væri ef félagið væri skráð á Íslandi.

 Vildu hafa peningana í alþjóðlegu umhverfi

Sigmundur Davíð hefur ekki svarað spurningum sem RME eða Kastljós hafa beint til hans vegna málsins frá því að hann gekk út úr áðurnefndu viðtali sem tekið var 11. mars síðastliðinn. Hann hefur aftur á móti sent frá sér tvær yfirlýsingar á bloggsíðu sinni og mætt í viðtöl á Útvarp Sögu og 365 miðla. Þar hefur hann talað um að tilgangurinn með stofnun félagsins á aflandseyjunni Tortóla hafi verið að tryggja að eignirnar væru aðgengilegar sama hvar í heiminum þau hjónin myndu ákveða að búa.

Peningarnir eru sjálfir geymdir á reikningum í Bretlandi þó að félagið sem á pappírum á peningana sé skráð allt annars staðar. Hefðu forsætisráðherrahjónin ákveðið að skrá félagið líka í Bretlandi hefði hins vegar verið hægðarleikur fyrir almenning að komst að upplýsingum um raunverulega eigendur þess og þar með fjármunanna. Þannig hefði verið hægt að nálgast fjárhagsupplýsingar um rekstur félagsins, eignir og skuldir, með því einu að fletta upp ársreikningi félagsins í opinberum gögnum bresku fyrirtækjaskrárinnar. Sömu sögu er að segja hefði félagið verið skráð í Danmörku.

Losaði sig við hlutinn á hentugum tíma

Sama dag og Sigmundur Davíð mætti í sinn fyrsta Kryddsíldarþátt sem formaður Framsóknarflokksins árið 2009 seldi hann 50 prósent eignarhlut sinn í Wintris til Önnu Sigurlaugar. Leiða má að því líkur að Anna Sigurlaug hafi getað greitt fyrir hlutinn í reiðufé því söluverðið var einn dollari. Kaupsamningurinn, sem er meðal þeirra gagna sem RME hefur undir höndum, er undirritaður af Sigmundi Davíð sjálfum og dagsettur 31. desember árið 2009.

Hefði Sigmundur Davíð átt hlutina einum degi lengur hefði hann þurft að gefa upp ítarupplýsingar um eignarhald félagsins, eignir þess og skuldir, samkvæmt nýjum reglum sem tóku á aflandsfélögum. Um er að ræða svokallaðar CFC-reglur sem samþykktar voru í tíð minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem studd hafði verið vantrausti af Framsóknarflokknum undir stjórn Sigmundar Davíðs. CFC reglurnar breyttu miklu fyrir íslensk skattayfirvöld og eigendur aflandsfélaga. Skattayfirvöld áttu að fá ítarlegri upplýsingar um eigendur félaganna, eignir þess og tekjur. Eigendum slíkra félaga varð þar með skylt samkvæmt lögum að greina frá þessum upplýsingum til skattayfirvalda.

Reglurnar lögðu þannig kröfu á eigendur aflandsfélaga að upplýsa um félögin umfram það sem til dæmis stjórnvöld á Bresku jómfrúareyjunum gera. Þar til að reglurnar tóku gildi hafði í raun verið valkvætt hvort eigendur aflandsfélaga gæfu þau upp og þá var nóg að gefa upp nafnverð hlutabréfa í félaginu sjálfu – sem sjaldnast hafa nokkuð með raunverulegt verðmæti hlutabréfanna að gera. Mörg dæmi eru um það í gögnum Mossack Fonseca að félög sem eiga milljarða króna séu með útgefin hlutabréf fyrir fáeina dollara. Í tilviki Wintris var nafnverð hlutabréfanna 20 þúsund dollarar. 

Vissi af eignarhlut sínum um mitt ár 2009

Samkvæmt yfirlýsingum forsætisráðherrans var þarna um að ræða leiðréttingu á meintum mistökum Landsbankans í Lúxemborg sem hafi að eigin frumkvæði skráð þau bæði fyrir helmingshlut í félaginu. Segir hann að mistökin hafi uppgötvast þegar skipt var um umsýslufyrirtæki Wintris, sem þangað til hafði verið Landsbankinn í Lúxemborg. Samkvæmt tölvupóstum Mossack Fonseca var það í júlí árið 2009 sem Sigurður Atli Jónsson, bankastjóri Kviku, hafði samband við panamísku lögfræðistofuna og kom þá fram fyrir hönd Wintris í þeim tilgangi að fara yfir framtíðarskipulag félagsins.

Í bréfi Sigurðar Atla kom fram að Landsbankinn í Lúxemborg, sem þá var í slitameðferð,  hefði sent Wintris bréf en í bréfinu, sem RME hefur undir höndum, kemur fram að þjónustu við Wintris sé slitið frá og með 15. júlí 2009. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að nýr umsjónaraðili taki við félaginu af Landsbankanum. Það var staðfest með tölvupósti til Mossack Fonseca þann 19. október 2009 og það var umsýslufélagiðLuxembourg International Consulting, eða Intercosult sem tók þá við Wintris.

Hefði ekki upplýst þingið um félagið sitt

Samkvæmt samantekt Sigmundar Davíðs sem hann birti á bloggsíðu sinni á páskadag er það eftir þessi samskipti sem hann fær upplýsingar um að hann sé helmingseigandi fyrirtækisins sem átti hálfs milljarða króna kröfur á íslensku bankana auk ótilgreindra annarra fjármuna. Sama hvort um mistök við skráningu fyrirtækisins var raunverulega að ræða eða ekki var Sigmundur Davíð sannarlega helmingseigandi fyrirtækis sem, samkvæmt upplýsingum frá Alþingi, féll undir skilgreiningar um hagsmuni í hagsmunaskráningu þingmanna.

Samkvæmt reglunum, sem samþykktar voru í forsætisnefnd þingsins í mars 2009, bar þingmönnum að upplýsa um félög sem þeir ættu 25 prósent eða meira í. Sigmundur Davíð skráði eignarhlut sinn í Wintris Inc. hinsvegar aldrei í hagsmunaskráninguna.

Sigmundur Davíð hefur haldið fram að Wintris hafi ekki fallið undir ákvæði hagsmunaskrárinnar þar sem að félagið hafi ekki verið í atvinnurekstri og því hafi hann í raun aldrei þurft að upplýsa um félagið, jafnvel þó hann væri helmingseigandi þess. Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi er engin krafa gerð um að félag sé í einhverjum sérstökum rekstri til að telja eigi það fram á hagsmunaskráningunni, orðalag um atvinnurekstur vísi eingöngu til sjálfseignarstofnanna. Þá hefur Sigmundur einnig dregið í efa að hann hafi haft siðferðislega skyldu til að upplýsa um félagið og aðkomu sína að því enda markist siðferði hans af gildandi lögum.

Engin gögn liggja fyrir um að prókúra Sigmundar Davíðs til að koma fram fyrir hönd þess eða sýsla með eignir þess hafi verið dregin til baka. Hvorki á þessum tímapunkti né síðar. Prókúran var gefin út árið 2008, dagsett árið 2007, og er ótímabundin. Þá er þess hvergi getið í samskiptum umsjónaraðila Wintris við Mossac Fonseca eða í kaupsamningi á milli Önnu að Sigmundar Davíðs að verið sé að leiðrétta einhverskonar mistök.

Sagði Wintris tengjast félagi sem hann tengdist

Ekkert af þessum útskýringum sem Sigmundur Davíð hefur komið með síðustu vikur í yfirlýsingum og viðtölum við Útvarp Sögu og 365 miðla fengust frá honum í viðtali við RME og SVT sem tekið var í ráðherrabústaðnum 11. mars síðastliðinn. Aðspurður um hvað hann gæti sagt okkur um félag sem héti Wintris svaraði hann: „Það er fyrirtæki, ef ég man þetta rétt, sem tengdist einu af þeim fyrirtækjum sem ég var í stjórn hjá. Sem, hafði reikning, sem eins og ég nefndi hefur verið hjá, eða á skattaskýrslum síðan það var stofnað.“

Í fyrri hluta viðtalsins var Sigmundur spurður út í skattagögnin sem skattrannsóknarstjóri fékk heimild til að kaupa á síðasta ári. Þá var hann einnig spurður út í það, áður en spurt var um  Wintris, hvort hann ætti í eða tengdist aflandsfélögum. Þá sagði hann meðal annars að sér liði eins og fréttamaðurinn Sven Bergman, sem starfar fyrir fréttaskýringaþáttinn Uppdrag Granskning í sænska ríkissjónvarpinu, væri að saka hann um eitthvað misjafnt. Þegar síðan spurt var um Wintris sagði hann: „Núna er mér farið að þykja þessar spurningar skrýtnar, því það er eins og þú sért að ásaka mig um eitthvað þegar þú spyrð mig um félag sem hefur verið á skattskýrslu minni.“

Spurningin var þó einföld: „Hvað getur þú sagt mér um félag sem heitir Wintris?“