Einn reynslumesti borgarfulltrúi Reykavíkinga stofnaði aflandsfélag í Panama árið 2014. Júlíus Vífill Ingvason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að aflandsfélagið, Silwood Foundation, hafi verið stofnað til að halda utan um reikning sinn í bankanum Julius Bär í Sviss.
Þetta kemur fram í gögnum úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst höndum yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum vísðvegar um heim. Í gögnunum eru nöfn þriggja ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands auk fyrrverandi ráðherra, annarra stjórnmálamanna og íslenskra viðskiptamanna.
Bankinn gat ekki tengt Júlíus við félagið
Júlíus Vífill, sem hefur setið í borgarstjórn í fjórtán ár, lét stofna félagið í Panama í ársbyrjun 2014 og greiddi fyrir það um 200 þúsund krónur. Mikil áhersla var lögð á það að nafn hans kæmi hvergi fram, né hver raunverulegur eigandi félagsins væri. Hlutabréfin voru gefin út á handhafa. Svo mikil var leyndin yfir hinum raunverulega eiganda félagsins í allri skráningu og meðhöndlun þess að starfsmenn Julius Bär bankans sögðust ekki geta opnað bankareikning þar sem engin tengsl voru á milli Silwood foundation og Júlíusar Vífils.
Félagið er hvergi tilgreint í hagsmunaskráningu Júlíusar Vífils í borgarstjórn. „Enda þótt þess sé ekki krafist að geta eftirlaunasjóðs í hagsmunagreiningu borgarfulltrúa tel ég, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því og biðst velvirðingar á að hafa ekki gert það,“ sagði hann í yfirlýsingu vegna málsins fyrir helgi. Reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa eru þó skýrar og ber fulltrúum að skrá hluti sem nema 25 prósent eða meira af hlutafé eða stofnfé félags, sparisjóðs eða sjálfseignarstofnunar.
Sá sem aðstoðaði Júlíus við stofnun félagsins var lögmannsstofan Promptus lögmenn, sem er í eigu Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lögmanns og lektors við Háskóla Íslands. Samkvæmt gögnum panamísku lögfræðistofunar sóttist hann eftir að fá eins konar umboð fyrir þjónustu Mossack Fonseca hér á landi.
Neitaði að svara spurningum
Viku eftir að Júlíusi var fyrst greint frá efni umfjöllunarinnar, síðastliðin miðvikudag, náðist loks í hann þar sem hann var á leið til fundar í Umhverfs- og skipulagsnefnd Borgarinnar. Þar neitaði hann að tjá sig um málið. Samskiptin við hann voru eftirfarandi: „Heyrðu ég skal tala við þig síðar en ekki núna.“ En af hverju hefuru ekki svarað þessum spurningum? „Ég mun svara síðar,” sagði Júlíus Vífill sem í símtali síðar sama dag kvaðst vera að undirbúa skriflegt svar. Í því símtali vildi hann ekki svara því hvort panamíska félagið hefði verið gefið upp til skatts.
Tveimur dögum síðar, síðastliðinn föstudag, segir Júlíus að tilgangur félagsins hafi verið að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. Sjálfur situr Júlíus Vífill í varastjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Í tilkynningunni sagði hann að sjóðurinn og allt tengt honum væri í samræmi við lög. „Enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum,“ segir hann í yfirlýsingunni.
Eftir að yfirlýsingin var send var aftur haft samband við Júlíus og hann beðinn um að svara því hvenær skattayfirvöldum hefði verið tilkynnt um fyrirkomulag fyrirtækisins og hvort gerð hefði verið grein fyrir því á skattframtölum hans frá stofnun. Hann neitaði að svara. „Ég mun ekki tjá mig frekar en ég hef nú gert,“ sagði hann og sleit símtalinu. Á laugardag barst svo tölvupóstur frá Júlíusi Vífli þar sem hann sagðist hafa greint frá sjóðnum á skattframtali en að öðru leyti vísaði hann á yfirlýsingu sína.