Oddviti Framsóknar og flugvallarvina tengist tveimur aflandsfélögum. Hún er skráð fyrir tveimur félögum í umsjá panamísku lögfræðistofunar Mossack Fonseca; 7Callinvest sem skráð er á Tortóla og Ice 1 Corp sem var skráð á Panama. Sjálf hefur hún í störfum sínum í borgarstjórn ítrekað lýst sig andvíga því að Reykjavíkurborg eða fyrirtæki á hennar vegum eigi aðild að fyrirtækjum á aflandseyjum

null

Þetta kemur fram í gögnum úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst höndum yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum vísðvegar um heim. Í gögnunum eru nöfn þriggja ráðherra sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands auk fyrrverandi ráðherra, annarra stjórnmálamanna og íslenskra viðskiptamanna.

Ekki skráð í hagsmunaskrá borgarfulltrúa

Bæði aflandsfélög Sveinbjargar voru skráð í lok árs 2007. Félagið 7Callinvest Inc. var skráð á Tortóla í lok nóvember 2007 og Sveinbjörg Birna var eini hluthafi félagsins. Hún fékk útgefna prókúru, eða power of attorney, sem veitti henni heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins líkt og hún væri stjórnandi þess, en stjórnarmenn félagsins voru starfsmenn Mossack Fonseca.  Skjölin sem RME hefur undir höndum gefa til kynna að félagið hafi verið afskráð í fyrirtækjaskrá á Tortóla árið 2009.

Hitt aflandsfélagið sem tengist Sveinbjörgu Birnu, Ice 1 Corp, er skráð í eigu íslenska einkahlutafélagsins P-10 ehf. Þar er Sveinbjörg Birna enn skráður stjórnarformaður. Félagið er í eigu sex aðila auk Sveinbjargar. Samkvæmt nýjasta ársreikningi P-10 ehf. á félagið íbúðir í byggingu í Panama að verðmæti 177.625.050 króna. Sveinbjörg segir að bæði félögin hafi tengst fasteignaverkefnum á Panama en að af þeim hafi þó ekkert orðið vegna hrunsins. Því hafi hún talið að búið væri að slíta félögunum. Eignarhlutur hennar í íslenska fyrirtækinu P-10 sé þó enn skráður á hennar nafn, í skattaskýrslu hennar.

Ekkert þessara félaga, aflandsfélögin tvö og P-10, eru þó skráð í hagsmunaskráningu borgarfulltrúans hjá Reykjavíkurborg.

Vann í tengslum við aflandsfélög í Lúxemborg

Sveinbjörg Birna hefur mótmælt notkun skattaparadísa í tengslum við fyrirtæki borgarinnar. „Alveg eins og mér finnst ekki koma til greina að Orkuveitan eða félög á vegum Reykjavíkurborgar stofni félög í skattaparadísum að þá finnst mér ekki koma til greina að lífsskoðunar-, trúfélög og stjórnmálaflokkar taki við fjármunum frá löndum sem virða ekki lýðræða og mannréttindi og kvenfrelsi,“ sagði hún í Kastljósi fyrir ári síðan.

Sveinbjörg Birna starfaði sem lögmaður fyrir Delioitte í Lúxemborg. Spurð hver tilgangur með stofnun félaganna á aflandssvæðum hafi verið, segir hún ástæðuna hafa verið þá, að þægilegt hefði verið að stofna félög á Bresku Jómfrúaeyjum um fjárfestingarnar á Panama. Í störfum sínu fyrir Deloitte i Lúxemborg, hafi hún staðið að slíku fyrir viðskiptavini fyrirtækisins.

Sveinbjörg Birna viðurkennir að það hefði verið skattahagræði fólgið í uppsetningu og staðsetningu félagnna ef það hefðu komið peningar út úr þessum fasteingaverkefnum. „Já það hefði verið það.“