Tveir stjórnendur fyrirtækis sem Icelandair á fjórðungshlut í, Icelease ehf., áttu fyrirtæki í skattaskjólinu Panama sem fékk greiddan tæplega 130 milljóna króna hagnað af viðskiptum með Airbus-farþegaþotu árið 2013. Stjórnendurnir heita Kári Kárason og Sigþór Einarsson. Fyrirtæki þeirra í Panama hét Atozo S.A. Þetta kemur fram í Panamaskjölunum svokölluðu, gagnaleka um þúsundir fyrirtækja í skattaskjólum frá panamaísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca.
Icelandair er stærsta fyrirtæki Íslands og er skráð á hlutabréfamarkað hér á landi. Félagið er meðal annars í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair og stjórnarmaður í Icelease, er fulltrúi flugfélagsins hjá Icelease.
Icelease, sem á árum áður var dótturfélag Icelandair, er fyrirtæki sem sérhæfir sig í viðskiptum með flugvélar á alþjóðlegum markaði. Icelease keypti Airbus-farþegaþotuna af Atozo S.A. í Panama í mars árið 2013 fyrir 4.75 milljónir dollara í gegnum dótturfélag sitt á Möltu, Avenue One Aircraft Limited. Þetta kemur fram í samningi á milli Atozo S.A. og Avenue One Aircraft Limited frá því í mars árið 2013 en félagið á Möltu var stofnað í þeim mánuði. Samningurinn um viðskiptin er stílaður á heimilisfang Icelease á Íslandi og Kára Kárason, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Atozo hafði hins vegar keypt Airbus-þotuna af fyrirtækinu Esmerald í skattaskjólinu Cayman-eyjum fyrir 3.7 milljónir dollara í sama mánuði. Þotan var hins vegar seld samstundis til maltversks dótturfélags Icelease fyrir rúmlega einni milljón dollara meira sem varð eftir í Panamafélaginu. Þannig var búinn til söluhagnaður í skattaskjóli.
Sigþór Einarsson, starfsmaður og stjórnarformaður Icelease, segir að hann kannist ekki við félagið Atozo og viðskiptin með Airbus-vélina. Tekið skal fram að Sigþór er fyrrverandi aðstoðarforstjóri Icelandair en hann hætti þar árið 2011 til að hefja störf hjá Icelease. „Nei, ég kannast ekki við það. Við tjáum okkur annars ekkert um okkar viðskipti almennt. […] Það getur vel verið en ég þekki það bara ekki,“ segir hann aðspurður um Atozo. Aðspurður um hvort félagið, Icelease, sé með einhverja starfsemi á lágskattasvæðum eða í skattaskjólum segir Sigþór að hann vilji ekkert tjá sig. „Ég vil bara ekkert vera að tjá mig neitt. Ég ætla ekki að vera að brjóta þá reglu.“
Þrátt fyrir neitun Sigþórs þá kemur glögglega fram í Panamaskjölunum að hann átti Atozo S.A. og tók virkan þátt í því að selja Airbus-þotuna á milli félaga tengdum Icelease árið 2013. Sigþór sendi tölvupóst til Þorsteins Ólafssonar, starfsmanns eignastýringarfyrirtækisins Arena Wealth Management í Lúxemborg, í mars árið 2013 þar sem skjalið um söluna á Atozo, sem Fréttatíminn spurði hann um, er í viðhengi. „Þetta er fyrsta plaggið sem þarf að undirrita í Panama. Ég reikna með að þeir vilji sjá kaupsaminginn líka?,“ sagði Sigþór.
Sigþór skipulagði því viðskiptin með Airbus-vélina ásamt Erlendi Gíslasyni, lögmanni á Logos, sem sendi Sigþóri eftirfarandi tölvupóst í aðdraganda sölunnar. „Formið á þessum Bill of sale er orðið endanlegt og því brýnt að koma því í undirritun af hálfu Atozo. Geturðu sent þetta á tengiliðinn fyrir Panamafélagið...“ Í lok mars 2013, undir titlinum „Atozo: Gögn sem vantar upp á“, skrifaði Sigþór í tölvupósti til Þorsteins Ólafssonar hjá Arena Wealth Management: „Fingers crossed ... This should be the last one. Eg skulda ther ordid heavy dinner …“ Með þessu átti Sigþór væntanlega við að Þorsteinn hefði aðstoðað hann svo mikið í viðskiptunum.
Skráðir eigendur Atozo voru þeir Sigþór og Kári, báðir áttu 50 prósent í félaginu að því er segir í Panamagögnunum. Þeir áttu einnig samtals 50 prósent í Icelease á móti Magnúsi Stephensen og Icelandair. Samkvæmt skjali í Panamagöngunum, sem Kári undirritaði, fékk Icelease hugmyndina að milligöngu Atozo í viðskiptunum og var tilgangurinn að búa til hagnað fyrir Icelease. Skráðir eigendur Atozo voru hins vegar bara þeir Sigþór og Kári, ekki Icelease. Atozo var svo slitið árið 2014 og skrifuðu þeir Kári og Sigþór báðir undir slit félagsins að því er stendur í skjali í Panamagögnunum.
Sigþór neitar aðspurður að svara hvert hagnaðurinn fór þegar Fréttatíminn hringir í hann aftur og spyr af hverju hann hafi sagt að hann kannaðist ekki við Atozo. „Við störfum í alþjóðaviðskiptum og hér fer fullt af hlutum í gegnum borðið hjá okkur. En það stendur sem ég sagði að við tjáum okkur ekki um viðskipti félagsins.“ Sigþór neitar ítrekað að svara því hver fékk peningana út úr Atozo áður en félaginu var slitið. „Ég hringi í þig ef ég hef einhverju við þetta að bæta.“
Ekki náðist í Kári Kárason, framkvæmdastjóra Icelease og hluthafa í Atozo, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Fréttin er unnin í samstarfi við Reykjavík Media og Morgunútvarp Rásar 2.
Segir skatta hafa verið greidda á Íslandi
Sigþór Einarsson, starfsmaður Icelease, vildi ekki ræða um viðskipti Atozo S.A. í fyrstu tvö skiptin sem Fréttatíminn hringdi í hann. Það var ekki fyrr en eftir seinna símtalið, þegar ljóst var að gögn um viðskiptin lágu fyrir, sem Sigþór hafði samband við blaðið og vildi svara spurningum skriflega. Viðbrögð Sigþórs við fyrirspurnum um viðskipti Atozo S.A. í símtölunum eru hins vegar lýsandi fyrir þá leynd sem fyrirtæki sem nota skattafélög reyna að halda yfir þeim viðskiptum.
1. Af hverju var félagið Atozo S.A. í Panama stofnað og hverjir voru eigendur þess félags?
Svar: „Þetta var ónotað skúffufélag frá gamalli tíð. Hluthafi auk mín var Kári Kárason.“
2. Félagið keypti og seldi Airbus-vél árið 2013 og hagnaður upp 1050 þúsund dollara myndaðist. Hvert fór sá hagnaður?
Svar: „Icelease ehf. rukkaði Atozo S.A. um allan hagnaðinn af viðskiptunum, 1050 þúsund dollara. Félögin gerðu samning sín á milli hvað þetta varðar. Þessar tekjur koma fram í ársreikningum Icelease ehf fyrir árin 2012 og 2013 (vinna við verkefnið teygði sig yfir þessi áramót). Allur hagnaður af verkefninu var því skattlagður á Íslandi.“
3. Var hagnaður félagsins skattlagður?
Svar: „Félagið (Atozo S.A.) hafði ekki hagnað af viðskiptunum eins og sjá má að ofan. Allur ágóðinn rann til Icelease á Íslandi og var skattlagður þar.“
4. Af hverju keypti dótturfélag Icelease á Möltu ekki vélina beint frá félaginu á Seychelles, Esmerald?
Svar: „Mótaðilinn í viðskiptunum gat ekki fallist á það fyrirkomulag. Þetta fyrirkomulag hafði ekki áhrif á hvar fjárhagslegur ávinningur af viðskiptunum lenti, né heldur skattalega meðferð tekna sem af þeim hlutust.“
5. Hver er staða Atozo í dag?
Svar: „Félagið hefur verið lagt niður. Engin önnur viðskipti áttu sér stað í félaginu.“
6. Hver var aðkoma stjórnar og hluthafa Icelease að viðskiptunum? Fóru þau fyrir stjórn?
Svar: „Báðir hluthafar Icelease ehf. eiga fulltrúa í stjórn. Viðskiptin fóru fyrir stjórn.“
*Tekið skal fram að ekki er minnst á Atozo S.A. í ársreikningi Icelease ehf. fyrir árið 2013
Flugvélar Icelandair skráðar á lágskattasvæði á „árum áður“
Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair og stjórnarmaður í Icelease:
1. Vissir þú, sem starfsmaður (fjármálastjóri) og fulltrúi Icelandair, að Icelease, hlutdeildarfélag Icelandair, notaði félag í Panama sem heitir Atozo S.A. sem millilið í viðskiptum með Airbus-þotu og Boeing-þotu árið 2013?
Svar: „Icelandair Group á 25% eignarhlut í Icelease og ég er fulltrúi félagsins í stjórn. Viðskiptin með Airbus vélina voru kynnt á stjórnarfundi Icelease þar sem m.a. var farið yfir ferlið í tengslum við viðskiptin og að allur ávinningur af þeim yrði talin fram hjá Icelease ehf., á Íslandi og þar af leiðandi greiddur af þeim tekjuskattur hér á landi. Mér er ekki kunnugt um að Icelease hafi átt í viðskiptum með Boeing þotu á árinu 2013.“
2. Hverjir, aðrir en þú, innan Icelandair höfðu vitneskju um aðkomu Panamafélagsins að þessum viðskiptum? Komu til dæmis forstjóri Icelandair, framkvæmdastjóri og stjórn að þessari ákvarðanatöku?
Svar: „Ég minnist þess ekki að þessi viðskipti hafi verið kynnt sérstaklega fyrir forstjóra eða stjórn Icelandair Group, enda er það almennt ekki gert. Icelandair Group er minnihlutaeigandi í Icelease með 25% eignarhlut og ég er fulltrúi Icelandair Group í stjórn Icelease og hef hefðbundið stjórnarumboð.“
3. Af hverja valdi Icelease að nota félag í skattaskjóli sem millilið í viðskiptum með farþegavélarnar? Hver var tilgangurinn? Af hverju var Airbus-þotan ekki keypt beint af maltversku dótturfélagi Icelease?
Svar: „Samkvæmt mínum upplýsingum óskaði mótaðilinn í viðskiptunum eftir þessari tilhögun. Stjórn Icelease gerði ekki athugasemd við það enda hafði það ekki áhrif á reikningshaldslega meðferð viðskiptanna í ársreikningum Icelease á Íslandi eða skattalega meðferð. Allur hagnaður af viðskiptunum var talinn fram hér á landi eins og áður hefur komið fram.“
4. Hvað varð um hagnaðinn af viðskiptunum sem myndaðist inni í Atozo þegar félagið á Möltu keypti Airbus-vélina og 1050 þúsund dollarar urðu eftir inni í Atozo, mismunur á kaup- og söluverði vélarinnar?
Svar: „Icelease ehf. á Íslandi sá um viðskiptin og rukkaði Atozo um allan hagnaðinn og var hann tekjufærður í bókhaldi Icelease ehf. á Íslandi og skattlagður hér á landi.“
5. Hvaða skattalegu áhrif hafði notkun Panamafélagsins fyrir Icelease? Hver var munurinn skattalega að nota Panamafélagið sem millilið í stað þess að Möltufélagið keypti vélina beint?
Svar: „Munurinn var enginn skattalega. Hagnaðurinn hefði líka verið skattlagður að fullu á Íslandi hefði Möltufélagið keypt vélina beint.“
6. Stundar Icelandair, og eða Icelandair Group sem heild til að mynda dótturfélög og eða hlutdeildarfélög, almennt séð slík viðskipti í gegnum skattaskjól? Eða er þetta eina dæmið sem þér er kunnugt um?
Svar: „Varðandi spurningar 6-9 (þú lætur mig vita ef þér finnst þetta ekki duga sem svar við þessum spurningum) er hér svar sem við sendum á fjölmiðil fyrr á árinu sem svar við fyrirspurn af svipuðum toga (Þú fjallaðir einmitt um Icecap í grein í Stundinni fyrir rúmu ári).“
„Icelandair Group er með mjög mikla starfsemi erlendis, starfsfólk og skrifstofur í mörgum löndum, enda teygir starfsemi félagsins sig um allan heim. Tvö fyrirtæki eru staðsett á svæðum sem stundum eru flokkuð með lágskattasvæðum. Hvorugt landanna er þó á lista fjármálaráðuneytisins um lágskattasvæði. Icelandair Group greiðir skatta á Íslandi vegna þessara félaga.
Hluti alþjóðlegra trygginga Icelandair Group er í félaginu Icecap, sem er svokallað bundið frumtryggingarfélag, staðsett á Guernsey. Saga fyrirtækisins nær aftur til ársins 1996. Afkoma Icecap er talin fram á Íslandi og Icelandair Group greiðir tekjuskatt á Íslandi af starfsemi félagsins. Svo til allar eignir félagsins eru einnig ávaxtaðar í íslenskum bönkum og ríkisskuldabréfum. Aðalástæðan fyrir staðsetningu á Guernsey er sú sérþekking á frumtryggingastarfsemi sem þar er í boði en flest meðalstór og stór flugfélög í Evrópu reka bundið frumtryggingarfélag (e. captive insurance company) með sambærilegum hætti.
Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, leigir flugvélar til viðskiptavina um allan heim og á fyrirtækið félag á Bermúda. Engar tekjur, eignir eða skuldir hafa nokkurn tímann verið í umræddu félagi. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var að flugmálayfirvöld í landi viðskiptavinar samþykktu ekki íslenska skráningu flugvéla á þeim tíma sem félagið var stofnað og gerði viðskiptavinurinn kröfu um skráningu á Bermúda. Allir reikningar fyrir þjónustu voru gefnir út á Íslandi og greiddi viðskiptavinurinn reikninga fyrir flugvélaleiguna beint til Loftleiða Icelandic ehf. Allir skattar voru því að sjálfsögðu greiddir á Íslandi.