Það er engin ástæða til að ég ræði það við þig,“ segir Ellert Vigfússon, fjárfestir og fiskútflytjandi sem í gegnum árin hefur átt í fyrirtækjum eins og Icelandic Group og Sjóvík, aðspurður um aflandsfélög í skattaskjólum sem tengjast honum og koma fram í Panamaskjölunum svokölluðu frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca. Ellert spyr fyrst að því að hvernig hann tengist Panamaskjölunum – „Hvað hefur það með mig að gera?“ – þegar hann er spurður að því hvort hann hafi séð umfjöllum fjölmiðla um skattaskjólsgögnin á þessu ári. Þegar hann er spurður um eitt af félögunum, Elite Seafoods Panama Corp, sem stofnað var í ágúst árið 2012, bregst hann hins vegar við með því að segja að hann telji ástæðulaust að ræða um félagið við blaðamann.
Félög Ellerts í Panamaskjölunum – hin heita Norys Capital Ltd. og Becot Holding S.A. – eru einungis þrjú af fyrirtækjunum í gögnum Mossack Fonseca sem tengjast íslenskum sjávarútvegi með beinum eða óbeinum hætti. Ellert, sem fæddur er árið 1955, hefur verið umfangsmikill í fiskútflutningi í gegnum árin og var meðal annars forstjóri Icelandic Group í Bandaríkjunum og Asíu. Af íslenskum aðilum tengdum sjávarútvegi er Ellert einna umsvifamestur í Panamaskjölunum. Eitt af aflandsfélögum Ellerts, Norys Capital, fékk til dæmis lánaðar 850 milljónir króna frá Landsbankanum í Lúxemborg árið 2002.
Heimsmet Íslendinga
Í Panamagögnunum er meðal annars að finna útgerðarmenn, fiskútflytjendur, skipasala og einn fisksala á Íslandi. Fréttatíminn fjallar hér um þessi félög í samvinnu við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf. sem eitt íslenska fjölmiðlafyrirtækja hefur aðgang að gögnunum frá Mossack Fonseca. Panamagögnin urðu fjölmiðlaefni fyrr á árinu og var fjallað um þau í miðlum um allan heim í vor. Birting gagnanna leiddi meðal annars til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra eftir að upp komst að hann hefði átt hlut í félaginu Wintris á Tortólu sem átti eignir upp á hundruð milljóna króna.
Ekkert land í heiminum átti eins marga fulltrúa í Panamagögnunum og Ísland, miðað við höfðatölu. Sem dæmi má nefna að um 600 Íslendingar koma fyrir í gögnunum, 500 Svíar, jafnvel þó þrjátíu sinnum fleiri búi í Svíþjóð en á Íslandi, og einungis 200 Norðmenn. Íslendingar eiga því einnig Norðurlandamet í fjölda einstaklinga og fyrirtækja í gögnunum.

Eins og Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkissaksóknari bentu á í leiðara í Tíund, rits embættisins, nú í maí: „Íslendingar voru þannig ekki aðeins mestir og bestir í viðskiptum eins og haldið var fram þegar útrásin stóð sem hæst, með styrkum stuðningi ólíklegasta fólks, heldur virðist Ísland stefna í að setja heimsmet í hlutfallslegri þátttöku landsmanna í því alþjóðarugli sem aflandsheimurinn hefur að geyma.“
Notkun á aflandsfélögum var þannig ótrúlega útbreidd á Íslandi. Tekið skal fram að gögnin koma bara frá einni lögmannsstofu og að miklu fleiri lögmannstofur buðu upp á sambærilega aflandsþjónustu og Mossack Fonseca. Gögnin gefa því alls ekki tæmandi mynd af umsvifum Íslendinga í skattaskjólum á árunum fyrir hrunið 2008 og eftir það. Fyrirtæki á Kýpur hafa til dæmis veitt aflandsþjónustu sem verið hefur vinsæl hjá íslenskum fjárfestum og eins útgerðarfélögum, meðal annars Samherja sem átti útgerð sína í Afríku í gegnum Kýpur á árunum 2007 til 2013.
Gögnin um aflandsfélög einstaklinga og fyrirtækja í sjávarútvegi sýna líka að notkun þeirra hætti alls ekki í efnahagshruninu þar mörg gagnanna eru frá tímabilinu 2010 til 2014.
Aflandsfélag gefur út reikninga upp á tugi milljóna
Eitt af því sem vekur athygli í gögnunum er hversu margir fiskútflytjendur eru þar. Auk Ellerts og félaga hans eru umfangsmikil viðskipti aflandsfélaga í eigu framkvæmdastjóra fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks, Sigurðar Gísla Björnssonar. Sæmark er stórt fiskútflutningsfyrirtæki sem meðal annars var með rúmlega 8.8 milljarða króna tekjur í fyrra og skilaði rúmlega 55 milljóna króna hagnaði og stefndi á 25 milljóna króna arðgreiðslu. Aflandsfélag Sigurðar Gísla heitir Freezing Point Corp og var stofnað í Panama árið 2009.

Sjólaskip átti meðal annars útgerð á Kanaríeyjum sem fyrirtækið seldi til Samherja árið 2007 fyrir nokkra milljarða króna. Um var að ræða verksmiðjutogara sem veiddu hestamakríl meðfram strönd Vestur-Afríku, aðallega Máritaníu. Miðað við Panamaskjölin seldi fjölskyldan Afríkútgerðina í gegnum þessi aflandsfélög sín. Samherji rak útgerðina áfram fram til ársins 2013 þegar hún var seld til rússnesks fyrirtækis.
Í gögnunum er líka meðal annars fjallað um félag Guðmundar Jónssonar í Sjólaskipum, Champo Consulting Ltd. á Tortólu. Guðmundur vill ekki ræða um félag sitt við Fréttatímann og neitar meðal annars að gefa upp hvort félag hans var notað til að halda utan um eignarhald á útgerðum. „Ég hef ekkert um þetta að segja. Þetta er bara mitt mál.“ Guðmundur vill heldur ekki svara því hvort hann noti ennþá slík félög á aflandssvæðum.
Fjögur af systkinunum úr Sjólaskipum eru í gögnunum frá Mossack Fonseca en auk Guðmundar er þar að finna Harald Jónsson, Berglindi Jónsdóttur og Ragnheiði Jónu Jónsdóttur. Afrit af vegabréfum þeirra allra er að finna í gögnunum.
Lánaði 70 milljónir til útgerðar frá Tortólafélagi
Annar útgerðarmaður í Panamaskjölunum er Örn Erlingsson sem fyrr á þessu ári seldi útgerð sína Sólbakka ehf. til Stakkavíkur í Grindavík. Um var að ræða snurvoðarbát og 1000 þorskígildistonna kvóta. Örn sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að grundvöllur útgerðarinnar væri brostinn þar sem greiðslur og álögur til ríkisins væru svo miklar. „Þá er maður kominn í vinnu fyrir hið opinbera,“ var haft eftir Erni í Viðskiptablaðinu og var ljóst að hann sæi eftir því sem útgerðin þurfti að greiða í ríkiskassann.
Örn var hluthafi og prókúruhafi félagsins Artic Circle Corp í Panama sem lánaði útgerðarfélagi hans á Íslandi, Unga ehf., 70 milljónir króna árið 2006. Ungi ehf. var móðurfélag útgerðar Arnar, Sólbakka ehf., og hagnaðist félagið um rúman milljarð króna í fyrra, samkvæmt ársreikningi félagsins. Artic Circle Corp keypti einnig hlutabréf í Unga ehf. af fyrirtæki sem heitir Palli Egils ehf. á Selfossi og er kaupsamninginn að finna í Panamaskjölunum.
Félag Arnar í Panama stundaði því bæði lánastarfsemi til útgerðarfélags hans á Íslandi og einnig hlutabréfaviðskiptii með bréf í móðurfélagi Sólbakka, Unga ehf.
Örn var staddur erlendis þegar Fréttatíminn náði tali af honum. Hann gaf ekki færi á viðtali eftir að blaðið nefndi nafn félagsins í Panama við hann. Blaðið náði svo ekki í hann aftur.
Vildi sleppa við skatta í Danmörku
Einn eigandi fiskbúðar á Íslandi er í Panamagögnunum, Kristján Berg Ásgeirsson sem rekur Fiskikónginn í dag. Félag Kristjáns Berg var stofnað árið 2006 á Seychelles-eyjum og heitir Solberg Group Ltd. Ráðleggingar. „Ég seldi fyrirtækið mitt, Fiskbúðina Vör, og flutti til Danmerkur þar sem skattar eru sextíu og eitthvað prósent. Ég var með einkabankaþjónustu í Lúxemborg og þeir ráðlögðu mér þetta. Ef ég hefði verið skattaður í Danmörku hefði öll vinna mín síðastliðin 25 ára farið í danska ríkið. Og ég hafði voðalega lítinn áhuga á því. Ég borgaði skatta af sölunni á Íslandi en ég vildi ekki fara með peningana til Danmerkur út af skattinum. Ég ætlaði ekki að láta danska ríkið hirða af mér restina.“
Kristján Berg segir að hann hafi lagt peningana inn í félagið á Seychelles og svo tapað því í hruninu. „Ætli ég hafi ekki tapað svona 200 milljónum á hruninu. Ég flutti svo bara aftur til Íslands og er bara búinn að vinna baki brotnu síðan. Ég kann ekkert í fjárfestingum; ég er bara fisksali og hef alltaf bara verið það. Ég treysti öðrum mönnum til að gefa mér ráðleggingar um þetta. Ég vissi ekki betur á þessum tíma en að þetta væri í lagi. Ég var þrjátíu og tveggja ára og hélt ég gæti bara hætt að vinna og lifað á þessum peningum. Það er leiðinlegasta starf sem ég hef verið í.“
Hann segist vera löngu hættur að nota félagið.
Er þetta einkamál?
Þó ýmsir, eins og Kristján Berg Ásgeirsson, séu fúsir til að tala í löngu máli um viðskipti aflandsfélaga sinna þá getur verið erfitt að fá aðra til þess, eins og sést hér. Valborg María Stefánsdóttir, sem skráð er fyrir einu Tortólafélagi sem heitir Maser Shipping ásamt manni sínum, Gunnlaugi Konráðssyni, segir að það komi engum við af hverju hún stofnaði félagið. „Í hvaða tilgangi ertu að spyrja að þessu? Ég veit ekki af hverju ég á að gefa þér upplýsingar um þetta. Það er neikvæð umræða um þetta. Mér finnst þér ekkert koma þetta við. Ég ætla bara að eiga þetta allt fyrir mig.“
Spurningin er hins vegar hvort að notkun á aflandsfélögum í skattaskjólum sé sannarlega aðeins einkamál hvers og eins og Valborg vill meina. Með notkun Íslendinga og annarra á skattaskjólum verða ríki heimsins af miklum skatttekjum á hverju ári. Þó ekki sé hægt að fullyrða að allir sem noti aflandsfélög svíki undan skatti þá eru ástæður fyrir því að fjárfestar velja slík félög en ekki fyrirtæki sem ekki eru í aflands- eða lágskattasvæðum.
Þrátt fyrir að átta ár séu liðin fyrir íslenska efnahagshruninu, og þrátt fyrir að mikil umræða hafi verið um skattaskjól í samfélaginu á liðnum árum, þá áttu Íslendingar til dæmis ennþá 32 milljarða króna eignir á Bresku Jómfrúareyjum í árslok í fyrra. Vandamálin sem aflandsfélögin búa til – á milli 450 og 700 milljarðar króna voru sviknir undan skatti á árunum 2000 til 2008 samkvæmt mati hagfræðinganna Jóhannesar Hraunfjörð Karlssonar og Þórólfs Matthíassonar – virðast því alls ekki heyra sögunni til á Íslandi. Það sem Valborg vill meina að sé einkamál er því bara alls ekkert einkamál heldur hagsmunamál allra í samfélaginu.

Í Panamagögnunum er að finna reikninga gefna út af Freezing Point Corp upp á tæplega 300 þúsund og rúmlega 300 hundruð þúsund evrur, tæpar 40 milljóna króna á gengi dagsins í dag. Reikningarnir, sem eru frá árunum 2010 og 2011, eru stílaðir á fyrirtæki í Níkósíu á Kýpur sem heitir AMIH Limited en stjórnandi þess fyrirtækis er Íslendingur sem heitir Sveinn Helgason. Á reikningunum kemur fram að um sé að ræða umboðs- og milliliðagreiðslur fyrir tiltekin ár, 2010 og 2011, en ekki er tekið nánar fram í hverju þjónusta Panamafélagsins við kýpverska félagið felst. Á einum reikningnum kemur fram að greiðslumáti á að minnsta kosti hluta upphæðarinnar á öðrum reikningnum skuli vera greiðsla á reiðufé inn á bankareikning Freezing Point. Panamaískir stjórnarmenn félagsins skrifuðu svo undir reikningana.
Nýjustu gögnin um Freezing Point hjá Mossack Fonseca eru einungis tveggja ára gömul en í ágúst 2014 sendi Mossack Fonseca nýtt umboð til að stýra félaginu fyrir Sigurð Gísla til starfsmanns sænska Nordea bankans í Lúxemborg, Sveins Helgasonar, en sá maður sér um eignastýringu fyrir hann. Athygli vekur að íslenski bankastarfsmaðurinn í Lúxemborg ber sama nafn og stjórnandi fyrirtækisins á Kýpur sem reikningar aflandsfélagsins í Panama eru stílaðir á.

Fréttatíminn gerði ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Sigurði Gísla Björnssyni en án árangurs. Í tölvupósti til blaðsins sagðist hann vera staddur erlendis. Þegar hann var þrábeðinn um að hafa samband og spurður sérstaklega út í viðskipti Panamafélagsins við félagið á Kýpur svaraði hann ekki. Blaðið reyndi einnig að ná tali af Sveini hjá Nordea í Lúxemborg en án árangurs.
Eigendurnir fluttu fé sitt til Tortólu
Aðrir fiskútflytjendur í Panamaskjölunum eru hjónin Laufey Sigurþórsdóttir og Björgvin Kjartansson sem reka fyrirtækið Hamrafell í Hafnarfirði. Árið 2001 stofnuðu þau fyrirtækið World Wide Seafood Trading and Consulting Limited á Bresku Jómfrúareyjum. Fyrirtækið var stofnað í gegnum Búnaðarbanka Íslands. Laufey segir að þau hjónin hafi flutt fjármagn frá Íslandi sem var geymt í félaginu. „Við fluttum fjármagn frá Íslandi sem við geymdum í félaginu. Við áttum reikninga hérna heima og í Lúxemborg og þeir ráðlögðu okkur þetta í bankanum Við notuðum þetta félag aldrei í rekstri okkar fyrirtækis. Það var aldrei þannig að kaupendur á fiski legðu peninga inn í þetta félag.“ Hún segir að í rekstri fyrirtækis þeirra hafi slík félög á lágskattasvæðum aldrei verið notuð. Laufey segir að ekkert skattalegt hagræði hafi verið af viðskiptunum fyrir þau hjónin þar sem enginn auðlegðarskattur hafi verið á Íslandi á þessum tíma. „Félagið fór svo í hruninu og við töpuðum því fé sem við áttum inni í því. Þetta er bara tapað fé,“ segir Laufey.
Seldi skip gegnum aflandsfélag
Nafn Theódórs Guðbergssonar, fiskverkanda og kaupsýslumanns í Garði á Reykjanesi, er einnig að finna í Panamaskjölunum en hann rekur meðal annars fiskverkunina Cod ehf. Theodór stofnaði félagið Huskon International í Panama árið 2006 og fékk endurnýjað prókúrumboð yfir félaginu árið 2010 og var þá „eini eigandi þess“ eins og segir í faxi vegna skipaviðskipta félagsins árið 2010.
Theódór segir að fyrirtækið hafi verið stofnað til að selja skip sem keypt voru í Rússlandi. Hann segir að það hafi selt alls þrjú skip meðan það starfaði. Eitt skipið var selt á 4,25 milljónir evra, rúman hálfan milljarð króna, til norsks skipafélags árið 2008. „Við vorum með viðskipti í Rússlandi og þetta voru ráðleggingar innan úr bankakerfinu [Landsbankanum] að fara þessa leið. Við keyptum bara skip og seldum í gegnum þetta félag. Við vorum ekki með neina útgerð í þessu. Þetta voru þrjú skip sem við seldum, eitt fyrir hrun og annað eftir hrun.“
Theódór segir að skattaleg áhrif af notkun félagsins hafi ekki verið nein; félagið hafi greitt skatta á Íslandi. „Við gerðum þetta svona til að sleppa við að setja skipin á íslenskan fána. Það hefði kostað augun úr að setja skipin á íslenskan fána. Það stóð ekki til að selja skipin hér innanlands.“
Hann segir að Huskon hafi einnig verið með íslenska kennitölu og hafi greitt skatta á Íslandi.
Stór fiskútflytjandi í Vestmannaeyjum
Theódór tengist svo öðru félagi í Panamaskjölunum, Arctic Circle Invest á Tortólu, sem hann stofnaði með nokkrum öðrum íslenskum fjárfestum árið 2007. Meðal annarra íslenskra fjárfesta í því félagi sem tengjast sjávarútvegi er fiskútflutningsfyrirtækið Godthaab á Nöf í Vestmannaeyjum og Árni Stefán Björnsson sem rekið hefur smábátaútgerðina Rakkanes.
Félagið var stofnað í gegnum eignastýringu Landsbankans í Lúxemborg að sögn Theódórs og tapaði hann persónulega talsverðum fjármunum á því. „Þetta var félag sem var í eignastýringu í Landsbankanum í Lúxemborg. Við áttum þetta nokkrir félagarnir. Það var í einhverjum hlutabréfaviðskiptum. Við ætluðum að sigra heiminn en það gekki ekki eftir. Þetta fór lóðbeint á hausinn í hruninu. Það var maður í eignastýringunni í Lúxemborg sem sá um þetta fyrir okkur.“
Theodór segir að bankarnir hafi verið duglegir að bjóða fólki upp á eignastýringu á þessum árum. „Ég var bara með venjulegan rekstur, saltfiskverkun, og við unnum hörðum höndum og gekk ágætlega. Svo var alltaf verið að bjóða manni þessa eignastýringu af því hún átti að mala gull en svo reyndist þetta bara tómt kjaftæði.“

Jakob Valgeir kannast ekki við félagið
Í Panamaskjölunum er einnig að finna útgerðarmenn með tengsl við aflandsfélög. Áður hefur verið fjallað um félag í eigu Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarmanns í Samherja, sem heitir Hornblow Continental Corp. Þá er bróðir hans, Þorsteinn Vilhelmsson, einnig í gögnunum vegna viðskipta við félagið Cliffs Investments á Tortólu. Stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, var einnig með tvö fyrirtæki í skattskjóli, eins og Fréttatíminn greindi frá fyrr á árinu.
Í gögnunum er einnig að finna nafn Jakobs Valgeirs Flosasonar sem á útgerðarfyrirtækið Jakob Valgeir í Bolungarvík. Jakob Valgeir er í sextánda sæti yfir kvótahæstu útgerðir landsins og skilaði meðal annars rúmlega 830 milljóna króna hagnaði í fyrra. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heiti Aragon Partners Inc. í Panama en nafn hans kemur fram á lista frá Mossack Fonseca yfir eigendur aflandsfélaga og hefur ekki verið greint frá því áður í fjölmiðlum.
Jakob Valgeir segist hins vegar ekkert kannast við félagið. „Ég hef aldrei heyrt þetta nafn áður. Ég skil ekki hvernig ég á að tengjast þessu. Ég veit ekki hvernig stendur á þessu.“ Ekki er hægt að fullyrða að Jakob Valgeir segi ekki satt þrátt fyrir tengingu hans við félagið í gögnum Mossack Fonseca. Jakob Valgeir segir aðspurður að hann hafi ekki átt neitt aflandsfélag eða -félög. „Ég átti ekki neitt slíkt; ég skil ekki hvað þú ert að tala um.“
Sjólasystkinin í skattaskjóli
Í gögnunum frá Mossack Fonseca eru einnig upplýsingar um eignarhaldsfélög sem meðlimir fjölskyldunnar sem rak Sjólaskip í Hafnarfirði um árabil áttu. Sjólaskip var fjölskyldufyrirtæki Jóns Guðmundssonar og var stofnað árið 1992 og tóku börn hans svo við útgerðinni. Jón sjálfur var með prókúruumboð fyrir einu félagi á Tortólu sem hét Sarin Systems Ltd. og var stofnað árið 2001. Eiginkona hans, Marinella R. Haraldsdóttir, var einnig með prókúruumboð fyrir umrætt félag.
Einstaklingarog fyrirtæki tengd sjávarútvegiog fisksölu í Panamaskjölunum
Árni Stefán Björnsson, fjárfestir og eigandi smábátaútgerðarinnar Rakkanes ehf., Ocean Wealth Capital á Tortólu, Arctic Circle Invest S.A. á Tortólu
Berglind Björk Jónsdóttir, eigandi Sjólaskipa, StentonConsulting S.A. á Tortólu
Björgvin Kjartansson, eigandi fiskverkunar- og útflutningsfyrirtækisins Hamrafells í Hafnarfirði, World Wide Seafoos and Trading Consulting á Tortólu
Ellert Vigfússon, eigandi og framkvæmdastjóri hjá fiskútflutningsfryrirtækinu Icelandic Group og Sjóvík, Elite Seafood Panama Corp í Panama, Sorell Holding Promotion Ltd. á Tortólu, Norys Capital Ltd. Becot Holding S.A.
Goodthaab í Nöf ehf, fiskútflutningsfyrirtæki í Vestmannaeyjum, luthafi í Arctic Circle Invest á Tortólu í gegnum félagið Nafarfoss ehf.
Guðmundur Jónsson, eigandi Sjólaskipa, Champo Consulting Limited á Tortólu
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, járfestir og stjórnarformaður Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, Tantami Venture og Tetris Estate á Tortólu
Gunnlaugur Konráðsson, hrefnuveiðimaður, Maser Shipping Ltd. á Tortólu, Arctic Circle Invest á Tortólu
Haraldur Jónsson, eigandi Sjólaskipa
Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður hjá Jakobi Valgeiri í Bolungarvík, tengdur við Aragon Partners Inc. í Panama
Jón Guðmundsson, eigandi Sjólaskipa, Sarin Systems Ltd. á Tortólu
Kristján Berg Ásgeirsson, fyrrverandi eigandi Fiskbúðarinnar Varar og núverandi eigandi Fiskikóngsins, Solberg Group Ltd. á Seychelles
Kristján Vilhelmsson, hluthafi og útgerðarstjóri Samherja, Hornblow Continental Corp á Tortólu
Laufey Sigurþórsdóttir, eigandi fiskverskunar- og útflutningsfyrirtækisins Hamrafells í Hafnarfirði, World Wide Seafood and Trading Consulting a Tortólu
Marinella R. Haraldsdóttir, eigandi Sjólaskipa, Sarin Systems Ltd. á Tortóla
Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, eigandi Sjólaskipa, Aurora Contintenal Limited á Tortóla
Sigurður Gísli Björnsson, eigandi fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks, Freezing Point Corp í Panama
Theódór Guðbergsson, fiskverkandi og skipasali í Garði á Reykjanesi, Huskon International Inc. í Panama, Arctic Circle Invest á Tortólu
Valborg María Stefánsdóttir, eiginkona Gunnlaugs Kristinssonar, Maser Shipping Ltd. á Tortólu
Þorsteinn Vilhelmsson, fjárfestir og einn stofnandi Samherja, viðskipti við Cliffs Investments S.A. á Tortólu
Örn Erlingsson, eigandi útgerðarfyrirtækjanna Unga ehf. og Sólbakka, eigandi Arctic Circle Corp í Panama